Námskraftur nemenda og samfélag kennara: Hjördís Alda Hreiðarsdóttir (Framhaldsskólinn í heimsfaraldri)

Kæru hlustendur, verið velkomin á Kennarastofuna! Það var einkar gaman að spjalla við Hjördísi Öldu. Ekki aðeins vegna þess að hennar rödd og sýn á kennslu er mikilvæg, og vegna þess að hún er framhaldsskólakennari sem starfar tímabundið sem kennslustjóri og horfir því á sviðið úr báðum áttum, heldur líka vegna þess að við Hjördís kenndum mjög náið saman í ein sex ár og höfum þróað með okkur vináttu sem er mér mjög mikilvæg og kær, bæði faglega og persónulega. Hjördís hefur í mörg ár verið minn bandamaður, en í samtalinu segir hún frá bandamönnum innan Menntaskólans við Sund, hlutverki þeirra og mikilvægi.

Það er gaman að segja frá því að í doktorsverkefninu mínu er ég einmitt að rannsaka mikilvægi góðs og innilegs samstarf á tímum örra breytinga og óvissu í skólastarfi. Eins oig ég hef áður sagt er þessi rannsókn er mitt framlag til rannsóknarinnar Framhaldsskólinn og samkomubann á tímum COVID-19: Kreppa, áskoranir og aðlögun sem ég hef áður talað um og þessi þáttaröð Kennarastofunnar hverfist um.

Þó að niðurstöður rannsóknar minnar séu ekki enn útgefnar í formi vísindagreinar – en það styttist þó í það – get ég sagt ykkur að greining mín á gögnunum sýnir að bandamenn innan skóla gegna mikilvægu hlutverki þegar kennarar standa frammi fyrir skyndilegum breytingum í kennslu eins og Covid tímabilið var.

Og ég get vottað fyrir það sjálfur að kostir þess að eiga í slíku samstarfi eru gríðarlega miklir, óháð breytingum, og ekki aðeins faglega heldur líka persónulega, eins og samstarf og vinátta okkar Hjördísar hefur kennt mér. 

Takk fyrir að hlusta á Kennarastofuna. Eins og hefur oft komið fram hér á Kennarastofunni þá er skóli samfélag. Ég yrði því afar þakklátur ef þið mynduð taka þátt í samtalinu á Twitter og Facebook en líka í raunheimum með því að spjalla við kollega og deila þættinum með öðrum sem þið teljið að gæti haft gagn og gaman af. Góðar stundir.

Það er rétt að það komi fram að þýðing mín á hugtakinu collegiality, samstarfskennd, fékk góða viðbót frá Berki Hansen við Menntavísindasvið, fagleg. Fagleg samstarfskennt. Það er nokkuð hljómfagur og nær nokkuð vel yfir þessa hugmynd um gott og náið samstarf innan skóla. Ég held áfram að máta þetta hugtak við starf kennara. Þið megið endilega gera það líka.

- - -

Ég vil þakka Fríðu Dís Guðmundsdóttur fyrir merki þáttarins og ómótstæðilegt bassastef og Smára Guðmundssyni hjá Smástirni fyrir upptökur og hljóðvinnslu á þáttunum og upptökur á stefinu sem þau útsettu í sameiningu og er nú orðið að útgefnu lagi, The Key to my Future Heart.

⁠⁠www.kennarastofan.is⁠⁠

⁠⁠#kennarastofan