„Námið á sér stað þegar ég er ekki að tala“: Ívar Valbergsson (Framhaldsskólinn í heimsfaraldri)

Verið velkomin á kennarastofuna. Við höldum áfram að fjalla um framhaldsskólann í heimsfaraldri og rannsóknina Framhaldsskólinn og samkomubann á tímum COVID-19: Kreppa, áskoranir og aðlögun. Og í þessum þætti snúum við okkur að verknámi og tölum við Ívar Valbergsson, kennara í vélstjórn við Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Við Ívar kynntumst fyrir rúmum tíu árum síðan þar sem hann tók snemma þátt í innleiðingu vendináms, sem ég hef áður talað um í þessum þætti. En fyrir hlustendur sem hafa ekki heyrt talað um þá kennsluaðferð þá snýst hún í grunninn um að nýta tíma kennara og nemenda innan kennslustofunnar sem mest í verkefnavinnu og samræður. Sem lið í því tekur kennarinn upp fyrirlestra og annað efni og sendir nemendum eða setur á kennslukerfið - fyrir kennslustundina - svo nemendur geti hlustað á efnið frá kennara, hvenær og hvar sem þeim hentar, og nýtt kennslustundina í verkefnavinnu undir handleiðslu kennara. Þetta er mjög gróf og einföld lýsing á kennsluaðferðinni en hún undirbýr ykkur allavega betur undir samtal mitt við Ívar sem hefur stuðst við aðferðina í nokkuð langan tíma.

Það eru eflaust ekki margir hlustendur Kennarastofunnar kennarar í vélstjórn en allir kennarar ættu þó að geta tengt við aðferðir Ívars að einhverju leyti og smitast af áhuga hans á kennslu og ástríðu. Því hún leynir sér ekki. En byrjum á að heyra hvað Elsa Eiríksdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og þátttakandi í rannsóknarverkefninu hefur að segja um rannsóknina, tilgang hennar og markmið. Við munum svo heyra meira frá Elsu í þessari þáttaröð en hennar sérsvið er starfsmenntun.

- - -

Þessi þáttaröð af Kennarastofunni hlaut styrk úr sjóði Háskóla Íslands sem styður verkefni sem miðla rannsóknum við háskólann til almennings. Auk viðtala við skólafólk er í þáttunum fjallað um rannsóknina Framhaldsskólinn og samkomubann á tímum COVID-19: Kreppa, áskoranir og aðlögun sem styrkt er af Rannís (nr. 217900-051).

Ég vil þakka Fríðu Dís Guðmundsdóttur fyrir merki þáttarins og ómótstæðilegt bassastef og Smára Guðmundssyni hjá Smástirni fyrir upptökur og hljóðvinnslu á þáttunum og upptökur á stefinu sem þau útsettu í sameiningu og er nú orðið að útgefnu lagi, The Key to my Future Heart.

www.kennarastofan.is

#kennarastofan