Hlutverk og mikilvægi Kennslumiðstöðvar HA, menntabúðir kennara o.fl.
Í þessum þætti spjalla ég við Helenu Sigurðardóttur sem starfar sem kennsluráðgjafi hjá Kennslumiðstöð Háskólans á Akureyri (KHA). Hlutverk KHA er að veita „ráðgjöf til kennara um þróun kennsluhátta í sveigjanlegu námi sem og um upplýsingatækni og kennslufræði“, eins og segir á heimasíðu. Í ljósi aðstæðna síðasta árið hefur hlutverk miðstöðvarinnar auðvitað verið ærið og mikilvægt en markviss þróun í átt að fjölbreyttum kennsluháttum og aðgengi kennara HA að tæknilausnum var þó hafið fyrr.
Við Helena kynntumst á fyrstu UTís ráðstefnunni á Sauðárkróki 2015. Menntabúðir og ráðstefnur og mikilvægi slíkra viðburða eru einmitt til umræðu í þættinum en Helena hefur verið óþreytandi við að auka samtal kennara með því að setja á fót menntabúðir og halda ráðstefnur.
Við Smári flugum norður um daginn og heimsóttum þrjá kennara í þremur skólum. Þetta er fyrsti þátturinn af þeim þríleik.
- - -
Ég vil þakka Fríðu Dís Guðmundsdóttur fyrir merki þáttarins og ómótstæðilegt bassastef og Smára Guðmundssyni hjá Smástirni fyrir upptökur og hljóðvinnslu á þáttunum og upptökur á stefinu sem þau útsettu í sameiningu.
Kennarastofan er framleidd af mér með stuðningi frá Vendinámssetri Keilis og Erasmus+ Menntaáætlun Evrópusambandsins.