Blogg

Frá hljóðnema til doktorsnáms


Júní, 2021

Eins og allir kennarar vita er gott og hollt að líta um öxl að vori og velta fyrir sér sigrum og tárum vormisserisins. Sumarið fer svo gjarnan í að melta hugsanir sínar og meta hvað gekk vel og hverju þurfi að breyta um haustið. Ég hef nú gert hvoru tveggja, hugsað og breytt.


Titill þessa pistils gefur til kynna einhverja hreyfingu, breytingu, en eins og með flest er merkingin og mikilvægið miklu frekar fólgin í ferðalaginu en áfangastaðnum. Upphafsstaðurinn, hljóðneminn, vísar í tvennt. Annars vegar er hann það tæki sem ég og aðrir kennarar í Keili gripum til haustið 2012 þegar allt nám, bæði stað- og fjarnám, var fært í það sem við köllum vendinám. (Aðferðina nefndum við fyrst speglaða kennslu en breyttum því svo í vendikennslu – sem enn er víða notað – eftir atkvæðagreiðslu á stórri vendinámsráðstefnu sem við héldum í Andrew’s Theatre á Ásbrú árið 2014. Við fórum þó fljótlega að tala um vendinám því við vildum færa áhersluna á nemandann og nám hans.) Á mjög skömmum tíma tókum við kennarar við Keili upp alla fyrirlestra, sem við höfðum fram að því flutt í fyrirlestrarsal skólans, og gerðum aðgengilega nemendum á Moodle fyrir hverja kennslustund en helst áður en áfanginn hófst. Aðferðin hefur síðan þá verið í stöðugri þróun og verður það áfram.


Hins vegar vísar hljóðneminn í það tæki sem ég hef haft með í för við upptökur á samtölum mínum við kennara fyrir hlaðvarpsþáttinn Kennarastofuna. Hugmyndina að hlaðvarpinu fékk ég um síðustu jól og viðraði við Arnbjörn Ólafsson, forstöðumann Markaðs- og nýsköpunarsviðs Keilis, strax á nýju ári. Honum leist vel á, svo vel að hann sá samleið með hlaðvarpinu og hinu nýja Vendinámssetri sem hann hefur komið á fót innan Keilis. Samstarfið hófst og ferðalag okkar Smára hljóðmanns þar með. Yfirskrift hlaðvarpsins er ‘Hlaðvarp um nám og kennslu í breyttum heimi’ og fjallar um þær breytingar sem kennarar, nemendur, skólastjórnendur og annað skólafólk þurfti að grípa til þegar heimsfaraldur setti allt úr skorðum og þær breytingar sem viðmælendur mínir telja að verði varanlegar. Allt hefur nefnilega áhrif og eftir svo stórfelldar breytingar getur ekkert orðið eins og áður, og það ætti ekki að verða það.


Og það leiðir mig að síðari hluti titilsins. Þær breytingar sem ég hef minnst á – vendinámið og hlaðvarpið sem hefur gefið mér færi á að eiga í samtali við kennara um reynslu þeirra af kennslu síðasta árið – hafa nefnilega haft ómæld áhrif á mig, bæði sem kennara og manneskju. Mig langar að rannsaka betur það sem hefur gerst og hvaða áhrif það muni hafa á menntun til framtíðar. Það mun ég gera í doktorsverkefni mínu sem ég mun hefja rannsóknir fyrir við Menntavísindasvið HÍ núna í haust. Ég hlakka til að takast á við þetta nýja verkefni en mun jafnframt halda kennslu áfram að einhverju leyti sem og samtölum mínum við kennara í annarri þáttaröð Kennarastofunnar sem hefst í ágúst. Í samtalinu býr kraftur sem ómögulegt er að kalla fram nema með því að læra af reynslu annarra og deila okkar eigin. Höldum því endilega áfram, kæru kennarar, að lokinni góðri hvíld í sumar.


– Þorsteinn Sürmeli
@surmelism | #kennarastofan | #islbokmenntir